Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Barnaníðingur að losna...........

Hef verið að fylgjast með umfjöllun kastljóssins undanfarið á málefnum barnaníðinga.  Það er dæmdur barnaníðingur sem er að losna úr fangelsi eftir að  hafa afplánað 3ja ára dóm (fékk reynar 4 ár-sem þótti stutt) kom í viðtal í kastljósinu undir nafni og án þess að hylja andlit sitt.  Það stakk mig í hjartastað að sjá hve sjálfsöruggur maðurinn virtist.  Jú hann sagðist nú reyndar sjá eftir gerðum sínum en virtist engu að síður hafa meiri áhyggjur af sjálfum sér en fórnarlömbum þeirra hryllilegu gjörða sem hann var dæmdur fyrir.  Í viðtali við föður eins af fórnarlömbunum kom fram að a.m.k. fimm fjölskyldur voru lagðar í rúst og eiga aldrei eftir að ná sér aftur.  Það hlýtur að vera ógnvænleg tilhugsun fyrir þolendurna alla að vita til þess að eftir nokkra daga gengur þessi dæmdi níðingur út í samfélagið án alls eftirlits og getur ef vill hafið sína fyrri iðju.  Hann segir okkur að hann sé breyttur maður en getum við treyst því?  Ég er þeirrar skoðunar að dæmdir menn eigi rétt á uppreisn æru eftir að hafa setið af sér dóm en ég er þeirrar skoðunar að þessi mál séu ekki sambærileg við önnur mál.  Ég veit reyndar ekki hvað hægt er að gera í tilfelli eins og því sem kastljósið hefur verið að fjalla um.  Eftir að hafa hugsað málið og sett mig í spor þolendanna (sem er varla hægt) fyllist ég gríðarlegri reiði en um leið finnur maður hve hjálparvana maður er og fyrir hönd þeirra sem gætu lent í svona mönnum fyllist maður líka hræðslu fyrir hönd barnanna sem eru þarna úti saklaus og alltaf tilbúinn til að treysta.  Það að maðurinn var kominn í lykilaðstæður til þess að fremja svona glæp þegar upp um hann komst fær mig til þess að hugsa um aðra sem í svoleiðis aðstæðum eru t.d. íþróttaþjálfara, leiðbeinendur og starfsmenn æskulýðsstöðva.  Auðvitað er það ekki sanngjarnt gagnvart þeim sem saklausir starfa á þessum vettvangi og eru upp til hópa yndislegt fólk, það þekki ég af eigin raun.  Engu að síður leggur þetta gríðarlega ábyrgð á hendur þeim er sjá um ráðningar þessa fólks.  Að lokum þetta; ég get ekki að því gert að líf mitt myndi umhverfast ef dæmdur níðingur flytti í næsta nágrenni við mig og mitt barn, þessu eru þeir foreldrar sem ég hef rætt við mér sammála en hvað er til ráða? spyr sá sem ekki veit.  Notum nú tækifærið eftir umfjöllun kastljóssins og komum raunverulegri umræðu af stað í þjóðfélaginu.  Ég veit að þarn úti eru brotnar fjölskyldur sem nú eru fullar af reiði og sárindum, eru líka skíthrædd nú þegar þau vita að viðkomandi ainstaklingur er að losna, fyrr en dómurinn kvað upp úr um væntanlega fyrir góða hegðun innan múranna.  Það kom fram að í fangelsinu umgangast þeir menn sem dæmdir hafa verið fyrir níðingsskap gagnvart börnum ekki aðra fanga af hræðslu við að vera lamdir.  Þeir hnappa sig saman níðingarnir.  Eftir að hafa umgengist helst enga nema aðra níðinga í þrjú ár, eru svoleiðis einstaklingar tilbúnir til að koma út í þjóðfélagið án eftirlits? Ég gæti haldið endalaust áfram en læt hér staðar numið að sinni.

Huglaus landsliðsþjálfari.

Ég verð að viðurkenna að nýji landsliðsþjálfarinn veldur mér miklum vonbrigðum með sínu fyrsta vali á landsliðshóp.  Sami grauturinn í sömu skálinni, aðeins skipt um sleifina sem hræra skal í pottinum.  Sú skoðun Óla að ekki hafi komið til greina að skipta um fyrirliða finnst mér lika furðuleg.  Ég eins og allir sem áhuga hafa á fótbolta vona að liðinu gangi vel á Parken á móti Dönum en ég verð að viðurkenna að ég er ekki bjartsýnn.  Afsakanir um að tíminn sé knappur osfrv. eru ekki teknar gildar þegar um ísl.landsliðið er að ræða, þar er tíminn alltaf knappur.  Langt hlé er framundan hjá liðinu og vona ég að Óli og co taki sig saman í andlitinu og safni kjarki til breytinga og sýni okkur áhugamönnum um ísl. landsliðið að ráðning hans hafi verið rétt í stöðunni.  Að lokum verð ég að ítreka þá skoðun mína að valið veldur mér vonbrigðum og er að mínu mati metnaðarlítið fyrir nýráðinn einvald og þjálfara.

Björn Ingi og geislabaugurinn!!

Það er greinilega farið að flæða undan Birni Inga innan borgarstjórnarflokksins í Reykjavík og merkilegt nokk, hann er farinn að gera sér grein fyrir því.  Svandís Svavarsdóttir er loksins vöknuð úr dáinu/þagnarbindindinu sem hún hefur verið í síðan hún og Alfreð Þorsteinsson sprengdu meirihlutann í loft upp með dyggri aðstoð fyrrverandi borgarstjóra ásamt borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna sjálfra.  Björn Ingi reynir nú með öllum tiltækum ráðum að bjarga eigin skinni og dregur hina óliklegustu menn inn í umræðuna og velta ábyrgð yfir á hina og þessa menn.  Honum er ekkert heilagt í þeim málum.  Í örvæntingarfullri leit sinni að geislabaug til eigin nota dregur hann Geir Haarde nú inn í umræðuna og segir hann hafa vitað eitthvað um samruna REI/Geysir.  Ég bara spyr : Vissi formaður Framsóknarflokksins um samrunann?  Ef Geir vissi að til stæði að sameina fyrirtækin með öllum þeim göllum sem á samningunum voru, er Björn Ingi þá saklaus??  Af hverju spyrja blaða og fréttamenn ekki að því?  Hvað vissu formenn hinna flokkanna fyrir fundinn umrædda og hvað vissu þeir eftir hann??  Hvað vita þeir í dag?  Eru fjölmiðlamenn orðnir leiðir á málinu?? Það er greinilegt að meirihlutinn hangir á bláþræði.  Dagur B Eggertsson er alltaf tilbúinn til að leiða fréttamenn út um græna grundu ef minnst er á málið, talar um allt milli himins og jarðar en svarar aldrei neinni spurningu, hann kæfir viðmælendurna í endalausu orðagjálfri.  Hvar standa menn, hver fyrir sig í meirihlutanum í Rvík, í afstöðu sinni til þessa stóra máls og hvar standa þeir í afstöðu sinni til Björns Inga??  Svar óskast.

 


Bjór og léttvín í matvöruverslanir.

Ótrúlegur tvískinnungur og fáfræði virðist einkenna umræðuna í þjóðfélaginu um þetta frumvarp sem nú er lagt fram eina ferðina enn.  Gera menn sér ekki grein fyrir því að "ríkið" hefur fjölgað útsölustöðum á áfengi um rúm 100 % á fáum árum.  Aðgengið er orðið þannig að bensinstöðvar, barnafataverslanir, matvöruverslanir og fleiri aðilar eru að selja áfengi út um allt land.  Í nafni einkasölu og einokunar þenst "ríkisáfengisverslunin" út og hagar sér í flestu eins og um einkafyrirtæki væri að ræða.  Þeir auglýsa á stöndum fyrir utan verslanir, "sumarvín" , "tilboðsvín", "villibráðarvín" osfrv.  Þeir gefa út bæklinga, halda úti vefsíðu og svo mætti lengi telja.  Hættum þessari hræsni, styðjum frumvarpið og förum að haga okkur eins og menn. Með fullri virðingu fyrir áfengisvandamálunum sem vissulega eru fyrir hendi, en forsjárhyggja hefur aldrei reynst vel og er ég sannfærður um að bætt aðgengi að áfengi með skýrum reglum um framkvæmdina er ekkert annað en þjónusta fyrir siðmenntaða þjóð.  Það hefur verið gagnrýnt að heilbrigðisráðherra okkar Guðlaugur Þór styður frumvarpið, sagður eini heilbrigðisráðherrann á byggðu bóli sem þetta gerir. Það skal tekið fram að Guðlaugur Þór hefur árum saman lagt frumvarpið fram sjálfur og hefur verið drjúgur talsmaður einkarekstrar og af hverju ætti hann að hætta því þó hann hafi ákveðið að taka við þessu ráðherraembætti.  Það að Gulli hafi pólitískt þor til að halda fram sannfæringu sinni ber vott um stjórnmálamann sem þorir.  Ég lýk þessum pistli með ósk um að frumvarpið fari í gegn um alþingi án þess að andstæðingar þess fari að halda uppi málþófi sem þó virðist vera æðsti draumur Ömma og félaga í vinstri grænum.

 

 


Nýr landsliðsþjálfari í knattspyrnu.

Jæja þá er KSÍ búið að ráða nýjan þjálfara fyrir karlalandsliðið.  Ekki tók það langan tíma fyrir þessa greifa að ráða þjálfara.  Ég hef fylgst lengi með fótbolta, bæði á íslandi og erlendis.  Það hefur auðvitað valdið mér áhyggjum hversu ömurleg frammistaða landsliðsins hefur verið undanfarin misseri. Ekki skal allri sökinni skellt á Eyjólf þó vissulega sé hann capteinninn.  Mínar vonir stóðu til þess að núna yrði fenginn einhver til að stýra liðinu í leiknum á Parken sem framundan er og setjast svo niður að loknum þeim leik og kryfja málin til mergjar.  Með fullri virðingu fyrir Óla Jóh finnst mér þessi ráðning ekki metnaðarfull fyrir stjórn KSÍ.  Ég efast ekki um hæfni Óla Jóh sem þjálfara en hefði ekki verið rétt að anda aðeins eftir að þessari keppni lýkur og sjá hvaða kostir væru í boði.  Auglýsa hefði mátt stöðuna á alþjóðavettvangi og sjá hvað út úr því kæmi.  Einnig hefði mér fundist að kalla hefði átt saman þjálfara, gamla leikmenn, jafnvel fréttamenn og aðra viðurkennda knattspyrnuáhugamenn til málþings þar sem málin hefðu verið krufin til botns.  Einnig fyndist mér að kominn sé tími til að KSÍ setji sér markmið til lengri tíma, hvert ætlum við að koma landsliðinu á næstu fimm árum, tíu árum eða eitthvað slíkt.  Þetta yrði gert opinbert og við sem fylgjumst með á hliðarlínunni vissum hver stefnan væri og hver markmið þjálfara og stjórnar væru.  Einnig held ég að slík stefnumörkun ætti að eiga við um öll landsliðin okkar alveg niður í yngsta unglingaliðið og vinna svo að markmiðinu fyrir opnum tjöldum.  Óli Jóh sagði á fréttamannafundinum að hann réði.  Hann sagði samt ekki hverju hann réði og heldur ekki hvað hans metnaður stæði fyrir.  Kannski hafði hann ekki haft tíma til að setja sér markmið eða átta sig á því hvert hugur hans stefndi með liðið.  Það vekur aftur upp spurninguna um hvað hafi verið rætt í atvinnuviðtali Óla Jóh og formanns KSI.  Var kannski ekkert rætt annað en að Óli Jóh væri til í að skipta á "peysu" við Eyjólf ?  Spyr sá sem ekki veit enda kom ekkert fram á fundinum hvað Óli Jóh hefði verið ráðinn til að gera!!  Reyndar sagði kappinn að landsliðið væri ekki þekkt fyrir að skora mikið af mörkum svo hann myndi væntanlega reyna að laga vörnina.........  Að lokum vil ég óska Ólafi Jóhannessyni nýráðnum landsliðsþjálfara íslands í knattspyrnu til hamingju með starfið og vona að störf hans og framganga verði metnaðarfyllri heldur en umræddur fréttamannafundur.

Ræðukeppni Grunnskólanna

Fór í gærkvöldi á ræðukeppni milli Vogaskóla og Seljaskóla sem haldin var í Vogaskóla.  Ástæða þess að ég mætti á svæðið var sú að í liði Vogó var sonur minn Krissi.  Hann stóð sig auðvitað alveg frábærlega eins og reyndar krakkarnir allir.  Seljaskóli sigraði naumlega eftir æsispennandi keppni.  Það voru stoltir foreldrar sem gengu út og héldu heim á leið í roki og grenjandi rigningu.  Það var engu líkt að fylgjast með unglingum beggja skóla, örugg í fasi, kurteis hvort við annað en keppnisandinn til staðar og hart barist.  Að lokinni keppni tókust allir í hendur og þökkuðu fyrir drengilega keppni.  Sannarlega unglingunum, skólunum og þeim fullorðnu einstaklingum sem að liðunum stóðu til mikils sóma.

Laugardagur til lukku.......

Jæja, upp er runninn laugardagurinn 6. október og ég loksins sestur við tölvuna mína á ný, hún reyndar búin að vera biluð lengi en ekki er það nú eina ástæða tölvubindindisins míns.  Fer reyndar ekkert nánar út í það hér, af mörgum ástæðum.  Mig hefur klæjað í puttana undanfarið , dauðlangað til að leggja eitthvað til málanna á síðunni.  Það hefur verið af nógu að taka upp á síðkastið, setning alþingis, sameining orkurisanna, okrið sem blasir við á flesum stöðum, VALUR íslandsmeistari og auðvitað liðið mitt ÞRÓTTUR komið í deild þeirra bestu á ný.  Um allt þetta hefur mig langað að skrifa en ekki látið verða af.  Ég hef þetta ekki lengra núna enda var þessi færsla á fallegum lau-morgni eingöngu til þess ætluð að kanna hvort tölvan mín væri í lagi og hvort síðan væri virk eftir margra mánaða kyrrstöðu.  Heiti því svo hér með að koma sjálfum mér í gang í bloggheimum þó ekki væri nema fyrir sálarlífið mitt því ekkert er betra fyrir andlega heilsu en að létta svolítið á sér og viðra skoðanir mínar.

Stjórnarmyndun í burðarliðnum.

  Þá fer nú að færast spenna í umræðuna um myndun nýrrar stjórnar, og auðvitað sýnist sitt hverjum.  Mér sýnist að taugar samfylkingarmanna og V-grænna séu þandar til hins ýtrasta því þeir eru að gera sér grein fyrir því að líkur til þess að eyðimerkurgöngutúr þeirra í stjórnarandstöðu verði framlengdur um eitt tímabil enn.  Ögmundur leggst flatur í hverju viðtalinu á fætur öðru og fylkingin hennar Sollu sendir hvern candidatinn á fætur öðrum í viðtal með hugmyndir og tillögur um myndun stjórnar þar sem þeir vilja endilega vera með.  Geir heldur ró sinni og metur stöðuna á meðan innri átök virðast í hámarki hjá bændaflokknum gamla.  Ég viðurkenni fúslega að vera orðinn nokkuð spenntur varðandi stjórnarmyndunina.  Tíminn vinnur með Sjálfstæðisflokknum og þröskuldur vinstri flokkanna varðandi kröfur lækkar stöðugt með hverjum deginum sem líður. Hvernig líst mönnum á að byrja innleiðingu Frjálslyndra í flokkinn að nýju með því að taka þá með í nýja stjórn.  Kröfur þeirra geta ekki verið meiri en svo að Geir ætti að finna viðunandi lausn á því.  Addi Kidda Gau hefur haldið haus bæði í kosningabaráttunni og nú eftir kosningar, öfugt við framámenn Samfylkingar og Vinstri grænna.  Sjáum hvað setur.

Ingibjörg Sólrún fallin!!!!!

Ég verð að viðurkenna að ég var farinn að halda að ég myndi skrifa blogg undir fyrirsögninni "stjórnin fallin".  Sem betur fer virðist reyndin önnur.  Lýðræðið-kjósendur-íslendingar hafa talað-þeir hafa hafnað I.Sólrúnu sem leiðtoga.  Íslendingar hafa valið og þeir hafa hafnað.  Það eru einungis tveir flokkar sem misstu þingmenn sem þeir áður höfðu, þ.e. Framsókn og Samfylking.  Það þýðir m.ö.o.  að taparar kosninganna eru Ingibjörg og Co og svo auðvitað Sif, Jón og háttvirtur umhverfisráðherra.  Ég frábið mér þær afsakanir Samfylkingarfólks að stórsigur í síðustu kosningum réttlæti það að jöfnun atkvæða nú þýði sigur????  Bull--stjórnarandstaða í 16 ár - missir fylgis og missir virðingar hlýtur að seigja sitt.  Forysta Samfylkingar er fallinn- Sjálfstæðisflokkurinn og frambjóðendur hans eru ótvíræðir sigurvegarar þessara kosninga.  Klukkan nú á sunnudagsmorgni er rétt að skríða í 07.00 og stóru tíðindin akkúrat nú eru þau að mínu mati að Jón Sig form. Frammara er dottin inn og Hr. Marshall í suðurkjördæmi er hruninn út.  Draugavinurinn skrollmælti, ritstjórinn og bókakaffieigandinn Bjarni Harðarson er kominn á þing!!!! Til hamingju Ísland.

Vinstri GRÆNIR/GRÁÐUGIR........

Var að enda við að lesa DV sem kom út í dag.  Ótrúlegt að lesa um ófyrirleitni þingmannsins Jóns Bjarnasonarsem oftar en ekki hefur flutt ræður í þinginu um siðferði og siðleysi annarra.  Greinilega sannast þarna hið fornkveðna að "margur heldur mig sig".  Það að þiggja meira en tvöfalt hærri styrk v/húsnæðis heldur en hann greiðir fyrir FÉLAGSLEGA ÍBÚÐ er skandall.  Til að kóróna skandalinn eru yfir tuttugu manns á biðlista fyrir félagslega íbúð í sveitarfélaginu.  Væntanlega hafa einhverjir þeirra leitað liðsinnis háttvirts þingmanns og beðið um aðstoð eða fyrirgreiðslu.  Jón Bjarnason; hafðu samband við þetta fólk sem bíður og leitaðu eftir því að þau greiði þér og þínum VINSTRI GRÆNUM/GRÁÐUGUM  atkvæði sitt á morgun.  Skammastu þín Jón Bjarnason.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóhann Hannó Jóhannsson
Jóhann Hannó Jóhannsson
Einfættur sjálfstæðismaður sem dáir MAN UTD, Breiðablik,F.Berlin. Hefur unun af ræktun rósa og gaman af hvers kyns ræktun.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband