Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Guðmundur í BYRGINU dæmdur?

Var að enda við að horfa á Kompás þáttinn síðan í gær.  Í þættinum er farið yfir hið svokallaða Byrgismál sem virðist ætla að verða andstyggilegra eftir því sem það er meira rannsakað.  Hreinn og beinn hryllingur!  En það sem sló mig er það að mér finnst Kompásmenn hreinlega dæma manninn í þættinum.  Vissulega er útlitið svart fyrir GUÐmund en engu að síður er einungis bara búið að ákæra manninn en dómstólar eiga eftir að dæma í málinu.  Einhverjum kærum var vísað frá enda tilbúningur að því er sagt er.  Kompásmenn eiga hrós skilið en þeir verða að passa upp á að dæma ekki heldur verða þeir að gæta hlutleysis alla leið.  Það hefur vantað þátt á borð við Kompás og að mínu viti hafa þeir gert margt og mikið mjög vel en þurfa að passa trúverðugleikann því ekkert er dýrmætara.  Þátturinn "60mín" er frábært dæmi um þátt sem ekki stígur feilspor og vönduð og trúverðug fréttamennska höfð að leiðarljósi.  Áfram KOMPÁS!!

Var gefið frí í skólum til að fara og mótmæla??

Margar sögusagnir eru á kreiki um að nemendum hafi verið gefið frí í skólum til þess að þeir gætu farið niður í ráðhús, á pallana til þess að mótmæla.  Ég hef ekki fengið sannanir fyrir þessu en ef einhver les þetta og veit betur, þá eru upplýsingar vel þegnar.  Ef rétt reynist ættum við, launagreiðendur kennarans rétt á að vita hver/hverjir eru svo ósvífnir að taka sér þennan rétt, þ.e. að gefa frí, hvetja nemendur til þess að fara á pallana osfrv.  Misnotkun á aðstöðu myndi einhver seigja, kallar á að kennarinn verði hýrudreginn, verði gefin áminning eða einhverjar alvarlegri aðgerðir verði viðhafðar gagnvart viðkomandi kennara.  Gaman væri að vita hvort yfirmenn, þ.e. skólastjórnendur viðkomandi skóla hafi vitað af þessu!!  Þetta eru alvarlegri ásakanir en það að maður láti þetta sem vind um eyru þjóta.  Hvaða kennari/kennarar voru þetta og hvar eru þeir að kenna?? SVÖR ÓSKAST!!

Borgarstjórinn og fordómarnir!

Eftir að hafa hneykslast á illu umtali og óvæginni spaugstofu um helgina og eftir að hafa lesið drottningarviðtöl dagblaðanna við Ólaf og eftir að hafa hlustað á hann hjá Sigmundi í mannamáli setti mig nánast hljóðan. Er það virkilega borgarstjórinn sjálfur sem er fordómafyllstur gagnvart geðsjúkdómum og því að kalla þá sínu rétta nafni. Ólafur fór eins og köttur í kringum heitan graut um helgina og kallaði þunglyndi nöfnum eins og niðurdreginn og eitthvað slíkt. Þetta finnst mér veikleiki hjá Ólafi, hann á auðvitað að koma til dyranna eins og hann er klæddur og kalla hlutina þeim nöfnum sem þeir heita. Ef hann er eins hress og hann vill vera láta þá á hann að sýna það og sanna með framkomu sinni og hætta að kveinka sér eins mikið og hann hefur gert. Í þeim viðtölum sem hann hefur gefið kost á í sjónvarpi hefur hann verið dálítið eins og dæmdur maður og ekki brugðið fyrir eins og einu brosi. Ólafur og þið hin í meirihlutanum sýnið nú örlitla gleði og takið hraustlega til hendinni við stjórn borgarinnar.

Sjúkrahústengd heimaþjónusta, (heimahjúkrun)

Ég get ekki orða bundist þegar ég heyri rætt um niðurskurð í heilbrigðisþjónustunni, minnka þjónustu hér og færa einhverja þjónustu til og loka svo bara deildum??  Þetta er það sem er oftast í umræðunni þegar talað er um aðhald og sparnað á sjúkrahúsunum.  Oftast finnst mér eins og læknar, hjúkrunarfólk og annað starfsfólk sé ekki með í þessum ákvarðanatökum heldur virðast þetta vera ákvarðanir teknar í háum fílabeinsturnum.  Það að hjúkra sjúklingi inn á deild er gríðarlega kostnaðarsamt enda þjónustan á sjúkrahúsunum á heimsmælikvarða.  Ég held, og nú tala ég af reynslu, að sjúklingavæðingin sé orðin alltof mikil.  Ég nefni sem dæmi sjúkling sem kemur nokkuð hress inn til innlagnar, þarf samt til dæmis lyfjagjöf 2-3 yfir daginn.  Þessi sjúklingur er tekinn og háttaður niður í rúm, teknar af honum skýrslur osfrv.  Hann var á fótum, jafnvel að vinna og gat sinnt flestu eða öllu sem sinna þarf í daglegu lífi. Þessi "sjúklingur " er svo jafnvel farinn að hringja bjöllunni ef honum vantar vatn og lætur færa sér í rúmið, hann er semsagt orðinn sjúklingur í þar til gerðum búningi (náttföt sjúkrahússins).  Það sem ég er að benda á er að starfandi er á sjúkrahúsunum svokölluð "sjúkrahústengd heimaþjónusta"  Þar fer fram stórkostlegt starf unnið af færustu hjúkrunarfræðingum sem keyra á milli heimahúsa og sinna fólki af alúð.  Kostnaður ríkisins af sjúklingi sem getur verið heima og fengið hjúkrun, lyfjagjafir, sáraskipti osfrv. er klárlega aðeins brot af þeim kostnaði sem kostaði að hafa viðkomandi inn á sjúkrahúsinu, fyrir utan það að sjúklingurinn er heima hjá sínum nánustu.  Með eflingu heimaþjónustunnar gætu klárlega sparast umtalsverðar fjárupphæðir fyrir utan það að þeir sem virkilega þurfa að leggjast inn kæmust fyrr inn til lækninga en væru ekki í einhverri biðröð.  Ég hef notið heimahjúkrunar oft og getað jafnvel stundað mína vinnu og verið virkur þjóðfélagsþegn þó eitthvað bjáti á heilsufarslega, þökk sé sjúkrahústengdu heimaþjónustunni og því frábæra fólki sem þar starfar.--meira um þetta síðar.

Spaugstofan skammist sín!!

Mér og minni fjölskyldu ofbauð virðingarleysi spaugstofumanna í gærkveldi algerlega og nú finnst mér tímapunkturinn kominn, gefum spaugstofunni frí. Það að gera veikindi nýja borgarstjórans að aðalskemmtiefni þáttarins er högg fyrir neðan beltisstað, algerlega út í hött.  Aðgát skal höfð í nærveru sálar eru orð sem menn þurfa ætið að hafa í huga.  Ólafur á fjölskyldu, Ólafur á börn , Ólafur á vini og það hlýtur að hafa verið hræðilegt fyrir þá sem standa honum næst að horfa upp á hvernig veikindin eru sett í forgrunn.  Ég hef verið aðdáandi spaugstofunnar lengi en nú lögðust þeir og lágt, alltof lágt.  Réttast væri að þeir bæðust afsökunar og færu svo í frí.. langa fríið.  Þátturinn var vel unnin eins og venjulega, gervin hrein listaverk en innihaldið sveið og nísti inn að hjarta að horfa upp á þetta.  Ekki sparka í liggjandi mann, það hefði verið af nægu að taka til að grínast með án þess að setja erfið veikindi í forgrunn.

Laugavegurinn og kofaskriflin....

Jæja þá er borgin búin að tækla þessa kofa við Laugaveginn, aðeins sólarhring eftir að stjórn borgarinnar komst í hendur sjálfstæðismanna eru þeir búnir að afgreiða mál sem gamla meirihlutasamsuðan henti á milli sín og gátu ekki tekið ákvörðun um. Góð byrjun jafnvel þó þetta kosti borgina eitthvað þá var þetta mál sem þurfti að klára.  Ég held reyndar að laugavegsmálið sé nokkuð dæmigert fyrir getuleysi stjórnar sem samsett er úr mörgum flokkum og flokksbrotum með ákaflega ólíkar áherslur enda sýndi það sig að þeir Dagur og Björn Ingi gátu ekki leyst þetta mál.  Það að geta ekki einu sinni lagt fram sameiginlega stefnuskrá sýndi að grúppa þessara fjögurra flokka var ekki að gera sig.  Samfylkingin verður að fara að taka sig alvarlega og hætta þessu valdabrölti með flokkum sem þekkja ekkert annað en að tapa og að vera á móti og síðast en ekki síst eru margklofnir innan frá.  Laugavegsmálið er góð byrjun hjá nýjum meirihluta en nú verður fylgst með og krossað við loforðalistann sem liggur frammi.

 


Skrílslæti í Ráðhúsinu

Það var ömurlegt að fylgjast með beinni útsendingu í sjónvarpinu í gær og sjá skrílslæti bleyjudeildarinnar úr samfylkingunni og vinstri grænum ásamt skólakrökkum úr nágrenninu.  Skrílslæti þessara krakka eru eitt en það að Dagur og Svandís komi fram og réttlæti þessa hegðun.  Það að koma í veg fyrir að fundur borgarstjórnar geti farið fram er lítilsvirðing við lýðræðið og mætti gjarnan spyrja Dag, hvar eru umræðustjórnmalin nú??  Dagur missti lyklavöldin í gær en hann missti sig líka með ótrúlegum orðaflaum þar sem hann reyndi að réttlæta hegðan manna á pöllunum. Dagur á eftir að jafna sig og sjá að nýr meirihluti var myndaður skv. lögum og reglum og jafnvel þó menn séu spældir þá mega þeir ekki missa sig.  Ábyrgir stjórnmálamenn ættu að fordæma hegðan sem þessa.

Nýr meirihluti í Reykjavík??????

Ég var ákveðinn í að hætta að skrifa á þessa síðu vegna úthaldsleysis og aumingjaskapar en nú verð ég bara að gera eitthvað til að fagna nýjustu fréttum af borgarmálunum.  Ef satt reynist er þetta tvímælalaust fjöður í hatt Villa .  Ekki veitir af því hatturinn var orðinn ansi fjaðralaus.  En semsagt, til hamingju sjálfstæðismenn.

President Bush / Akranes

Stórkostlegt framtak fannst mér símaatið sem strákarnir á Akranesi framkvæmdu um síðastliðna helgi.  Reyndar skilst mér að númerið sem þeir hringdu í hafi gengið meðal unglinga og þeir sent þetta hvor öðrum með sms.  Reyndar fannst mér grínið fullkomnað þegar þessir 16 ára snillingar tóku stöð 2 í rassgatið og sendu annan strák í viðtalið.  Að horfa fyrst á stöð 2 og síðan fréttatíma RUV og sjá sitthvorn strákinn koma í viðtal undir sama nafni var frábært.  Ef þetta er merki um trúverðugleika fréttastöðvar stöðvar 2 þá þarf hinn nýji fréttastjóri að girða sig í brók.  Gaman væri að heyra í Steingrími varðandi málið.  Kannski ætti stöð 2 að biðjast afsökunar opinberlega eða í það minnsta óska strákunum til hamingju með blöffið.

Ísland Danmörk Parken

Jæja, þá er fyrsti landsleikurinn undir stjórn Óla Jó að baki.  Ekkert 14-2 dæmi en engu að síður ansi ömurleg frammistaða.  Liðið heldur áfram að fá á sig fullt af mörkum, átti ekki að bæta vörnina að minnsta kosti ?  Ég ætla að ítreka þá skoðun mína að þessi ráðning hafi verið fljótfærnisleg og finnst mér val liðsins, uppstilling þess og frammistaða í gær sýna það að þjálfarateymið nýráðna gat ekki nýtt tímann til þess að breyta hugarfari liðsins.  Tíminn var vissulega stuttur en hugarfarið var svipað og verið hefur, sjálfstraustið í liðinu ekkert og liðið allt eins og sprungin blaðra eftir að hafa fengið á sig fyrsta markið.  Stjórnin af bekknum virtist lítil og reyndar fannst mér sjálfstraust vanta þar líka.  Það kann heldur ekki góðri lukku að stýra að nota formann KSÍ, daginn fyrir leik, til þess að koma í fram í fjölmiðlum og kvarta undan umfjöllun fjölmiðla um landsliðið.  Óttast formaðurinn umfjöllunina eftir leikinn í gærkvöldi?  Fjölmiðlar eru og eiga að vera aðhald og formaður KSÍ hefur ekkert með það að gera að vera að væla!!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóhann Hannó Jóhannsson
Jóhann Hannó Jóhannsson
Einfættur sjálfstæðismaður sem dáir MAN UTD, Breiðablik,F.Berlin. Hefur unun af ræktun rósa og gaman af hvers kyns ræktun.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband