Hver axlar ábyrgð Vilhjálmur???

Þá er hún loksins komin fram skýrsla stýrihópsins svokallaða.  Það verður að seigjast eins og er að þessi skýrsla veldur vonbrigðum, hún er hvorki fugl né fiskur.  Svandís Svavarsdóttir ruddist fram á sjónarsviðið í haust og varð stjarna í borgarpólítíkinni á einni nóttu, a.m.k. að áliti sinna eigin flokksmanna.  Kjaftfor og með stórar yfirlýsingar eins og hún á kyn til fyllti hún hvern fréttatímann á fætur öðrum og fréttamenn tóku henni fagnandi enda talaði hún nánast í fyrirsögnum.  Með dyggri aðstoð Sjálfstæðismanna og svikum Björns Inga átti hún sinn þátt í að sprengja meirihlutann sem myndaður hafði verið eftir kosningarnar.  Í framhaldi af því myndaði hún ásamt félögum sínum 100 daga stjórnina og hafði uppi stór orð um að nú yrði allt dregið fram í dagsljósið, stýrihópur myndaður og allt skyldi rannsakað og allt fyrir opnum tjöldum.  Það verður að seigjast eins og er að hvorki heyrðist hósta né stuna frá umræddri Svandísi þá 100 daga sem hún var í meirihluta og frá stýrihópnum heyrðist lítið en Svandís boðaði að öll spil yrðu lögð á borðið og þeir sem hlut ættu að máli skyldu axla ábyrgð.  Einn höfuðpaurinn í málinu hefur hrökklast út úr pólitík, ekki vegna REI málsins heldur vegna árása eigin liðsmanna í Framsóknarflokknum.  Vafalaust hjálpaði það Birni Inga að taka þá ákvörðun að yfirgefa vettvang borgarmálanna að meirihlutinn sem hann myndaði eftir svikin við Sjálfstæðisflokkinn var sprungin, hann kominn í minnihluta, valdalaus og rúinn trausti og vitaskuld vissi hann af skýrslu stýrihópsins og gat alveg hugsað sér að sleppa við spurningar fréttamanna varðandi REI klúðrið.  Vonarstjörnur minnihlutans voru hálf niðurlút við kynningu skýrslunnar og töluðu reyndar aðeins um að merkilegt væri að meiri og minnhlutinn væru alveg samstíga og sammála varðandi skýrsluna.  Ekki heyrðist neitt i Degi B en skv. myndum að dæma þá var hann þarna samt er skýrslan var kynnt.  Mikið hefur verið látið með þátt Vilhjálms Þ Vilhjálmssonar í málinu og ekki að ástæðulausu.  Það skal viðurkennt hér að undirritaður studdi Villa í síðustu kosningum og var bara nokkuð sáttur við hans framgöngu framan af. Í REI málinu, bæði í undanfara þess og því moldviðri sem geysaði eftir brást Vilhjálmur algerlega.  Hann gerði afdrífarík mistök, hann gat ekki komið hreint fram og hvað eftir annað sýndi hann lélega forystuhæfileika, hans eigið lið vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið, hætti að treysta Villa og borgarstjórnarflokkurinn hefur verið í sárum síðan, jafnvel eftir að þessi veikasti meirihluti sögunnar var myndaður.  Þar vantar alla gleði og ekki bætir úr skák að borgarstjórinn sem aleinn situr í skjóli Sjálfstæðismanna virkar einangraður og hálfhræddur í viðtölum.  Að mínu mati á Vilhjálmur Þ Vilhjálmsson að ganga út af sviðinu, axla ábyrgð og afhenda Hönnu Birnu leiðtogasæti sitt í flokknum, þá fyrst getur Vilhjálmur sagt að hann hafi gengið frá borði með reisn. Í framhaldi af því eiga Ólafur F og sjálfstæðismenn að setjast niður og skipta út borgarstjóranum strax og láta Hönnu Birnu taka við og skipta um stól við Ólaf F.  Tími Villa í borgarstjórn er liðinn og kominn tími til að nýtt fólk taki við kyndlinum og tendri þar bál því kyndill Villa er kulnaður.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhann Hannó Jóhannsson
Jóhann Hannó Jóhannsson
Einfættur sjálfstæðismaður sem dáir MAN UTD, Breiðablik,F.Berlin. Hefur unun af ræktun rósa og gaman af hvers kyns ræktun.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband